Davíð talar....

Meira að segja á mannamáli......og allt verður vitlaust!


Bolungavík blæðir!

 

Ég er Bolvíkingur. Þótt ég sé búsettur í Reykjavík er ég Bolvíkingur og get aldrei orðið neitt annað. Vil ekki verða neitt annað. Ekki ósvipað og Íslendingar búsettir í útlöndum eru alltaf Íslendingar.

Ég er fæddur og uppalinn Bolvíkingur og stór hluti fjölskyldu minnar og ættboga býr þar og hefur gert frá aldaöðli. Bolungavík á þess vegna stóran sess í hjarta mínu. Hagur Bolungavíkur og velferð Bolvíkinga skiptir mig miklu máli, er reyndar mitt hjartans mál. Mér finnst ég standa í skuld við Bolungavík fyrir uppeldið. Ég hef reynt að sýna þakklæti mitt af veikum mætti með því að taka elsta húsið þar í fóstur, húsið sem ég fæddist í  og leggja mitt af mörkum til að fegra ásýnd æskustöðvanna. Ég er stoltur af því hvernig til hefur tekist.

 Undanfarinn áratug eða svo hefur ekki blásið byrlega fyrir Bolvíkingum eða öðru landsbyggðarfólki.  Landsbyggðin hefur átt í vök að verjast og ástandið hefur tekið mikið á það fólk og fjölskyldur sem þar búa. Þess vegna hefur samstaða fólksins skipt höfuðmáli. Ekki síst nú þegar virkilega ríður á að snúa vörn í sókn.

Þess vegna særði mig það meir en tárum taki að fylgjast með atburðum síðustu viku nú í upphafi sumars. Meirihlutinn í Bolungavík sprengdur í loft upp!

Nú gerist það að vísu í lýðræðisríkjum að innbyrðis átök geta orðið til þess að samsteypustjórnir springa.  Svo sem ekkert athugavert við það. Svona er lýðræðið. En undantekningalítið er það vegna ágreinings um pólitík, stefnumál, hvaða leiðir skuli farnar til að stuðla að sem mestri velferð fólksins. Ekkert er svívirðir lýðræðið meir, en ef þeir sem eru kosnir til ábyrgðarstarfa láta persónulega einkahagsmuni ráða... í skjóli umboðs almennings. Verri meðferð á lýðræðinu er ekki hægt að hugsa sér.

Því miður líta málin þar vestra þannig út að engu er líkara en einhverjar aðrar hvatir en velferð bæjarbúa ráði gerðum þeirra er nú stökkva frá borði á versta tíma, miðju kjörtímabili í háönnum.

Ég dvaldi í Bolungavík fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, var þar á kjördag og töluvert fram yfir hann. Ég hafði því gott tækifæri til að fylgjast  með aðdraganda kosninganna og því sem gerðist eftir þær, meðan sá meirihluti sem nú er að fara frá  var myndaður.

Órói var í kringum prófkjör D-listans. Helsta krafa þeirra var að sigurvegari prófkjörsins og þar með oddviti D-listans yrði bæjarstjóraefni þeirra.  Tveir kandídatar börðust hart um efsta sætið, annars vegar frændi minn Elías Jónatansson, hinsvegar Anna G Edvardsdóttir. Elías sigraði. Anna sætti sig ekki við úrslitin og klauf flokkinn. A-listinn var stofnaður, ósættið, og ég leyfi mér að segja fjandskapurinn sem af þessu hlaust virtist rista djúpt. Margt var sagt og gert sem maður ímyndaði sér að erfitt yrði að taka aftur.

Úrslit kosningana eru kunn. Til að fara fljótt yfir sögu mynduðu K-listi og A-listi meirihluta. Öllum var ljóst að oddviti A-listans gat ekki hugsað sér að vinna með Elíasi. Hún hafði lýst því yfir að hún vildi hann ekki sem bæjarstjóra. Þar sem sjálfstæðismenn höfðu verið í meirihluta samfellt síðustu 60 ár fannst fólki eðlilegt að sigurvegarar kosninganna, K-listinn, leyfði sjálfstæðismönnum að hvíla sig eftir svo langa og dygga þjónustu í meirihluta og leituðu til A-listanns sem hlaut að teljast eðlilegt með tilliti til úrslita kosninganna.

Það gekk eftir K og A mynduðu meirihluta, og réðu Grím Atlason til þess að gegna bæjarstjórastarfinu.

Það heyrðust nokkrar efasemdarraddir þegar Grímur var ráðinn. Ekkert óeðlilegt við það menn vissu ekki hver Grímur var eða fyrir hvað hann stóð. Eins var farið með mig ég þekkti hann ekkert. Á ótrúlega stuttum tíma vann Grímur hug og hjörtu Bolvíkinga með ljúfmannlegri framkomu, heiðarleika og ósérhlífni við að vinna bæjarfélaginu og íbúum þess gagn. Honum fylgdu ferskir vindar, nýjar hugmyndir og ástríðufull eljusemi við að tala máli, ekki aðeins Bolvíkinga, heldur allra Vestfirðinga. Hann hefur verið einn fremsti talsmaður landsbyggðarinnar allrar. Ég fullyrði að vinsældir hans í Bolungavík náðu langt útfyrir allar flokkslínur og mér er kunnugt um að margir velmetnir sjálfstæðismenn hafi verið öflugir fylgismenn hans. Ég er ekki í nokkurm vafa um að ef honum dytti í hug að bjóða sig fram í næstu kosningum myndi hann trúlega ná meirihluta.....einn!

Nú er svo komið að A-listinn er búinn að stöðva skipið í miðjum róðri, sviku samstarfsflokkinn, og sprengdu meirihlutann. Þessi litli hópur hefur gert lítið úr vilja meirhluta Bolvíkinga. Ástæðan? Jú trúnaðarbrestur! Fyrir utan það að það virðist vera í tísku að skýla sér á bakvið hið misnotaða hugtak  „trúnaðarbrestur¨" sem fæstir vita hvað er á bak við, þá segir oddviti A-listans að umsvif Soffíu Vangsdóttur í bænum séu orðin of fyrirferðamikil, hún sé of framtaksöm, það ber of mikið á henni! Hagsmunaárekstrar muni myndast. Helst er á A-listanum að skilja að Soffía sé að misnota aðstöðu sína í skjóli meirihluta Bolvíkinga til að skara eld að eigin köku! Í hverju skyldi nú þessi glæpur vera fólgin? Jú, að vera hluthafi í fyrirtæki systkina sinna sem var að landa 100 millj.kr samningi inní byggðarlagið um þjónustu við gangnagerðarmenn í formi fæðis og húsnæðis. Hún náði 1oo millj inní bolvískt samfélag sem hefðu auðveldlega getað farið annað! Viðskipti bolvískra þjónustufyrirtækja munu aukast um allan helming.

Bæjarstjórinn fullyrðir að þarna hefðu aldrei orðið hagsmunaárekstrar. Þessi  viðskipti hefðu aldrei komið inná borð bæjarstjórnar.

Þetta var lengi eina ástæða slitanna, síðar kemur að vísu yfirlýsing frá A-listanum, eftiráskýring sem heldur ekki vatni, þar er m.a fullyrt að oddviti A-listans hafi snuprað bæjarstjórann fyrir að lýsa skoðunum sínum í sjónvarpi! Reyndar er þessi yfirlýsing ótrúlegur samsetningur sem segir meira um höfundanna en ástandið í bæjarmálunum. Hver var t.d þessi gífurlegi ágreiningur í umhverfisráði sem sprengdi næstum meirihlutann?? Haldinn neyðarfundur! Einn fulltrúi, ein nefnd og meirihluti bæjarstjórnar við það að springa!

Ég þekki Soffíu Vagnsdóttur vel, betur en margir aðrir. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á henni, verður aldrei sagt um hana að hún hafi varið lífi sínu í það að hugsa um eiginhagsmuni, eða misnota traust almennings í eigin þágu. Þeir sem til þekkja vita, að helsti ljóður á hennar ráði er að að gera frekar hið gagnstæða, þ.e að hugsa um hag og velferð allra annara en sinn og sinna. Það er nú öll eiginhagsmunagæslan á þeim bæ!

Það vita allir sem vilja vita, að bæjarstjórn Bolungavíkur hefur alltaf verið skipuð athafnamönnum  og hefur aldrei verið talið byggðarlaginu til tjóns.

Frægasta dæmið er frændi minn Einar Guðfinnsson sem er að örðum ólöstuðum sá sem mest hefur gert fyrir bolvískt samfélag. Honum eiga íbúar Bolungavíkur mikið að þakka. Hann var einstakt stórmenni í anda og hugsun, maður sem hóf sig alltaf yfir alla flokkadrætti og lét fyrst og fremst hagsmuni fólksins ráða för. Það mættu margir taka þann höfðingja sér til fyrir myndar.

Það sjá allir heilvita menn að samstarfsslitin verður að skýra með öðrum og trúverðugri hætti, annars verður ekki annað séð en að aðrar og annarlegri hvatir hafi legið að baki þessum gjörningi.

Það hefði verið stórmannlegt og drengilegt af Elíasi og félögum fyrst svona var komið,  að hefja sig yfir flokkslínur,leggjast á árar með þeim lista sem hafði stuðning flestra Bolvíkinga í síðustu kosningum, K-listans, hugsa fyrst og fremst um hag fólksins og byggðarlagsins, bjarga verðmætum og róa skipinu heilu til hafnar. Ljúka kjörtímabilinu og verkum þeim sem nú eru í uppnámi.  Ég er er ekki í vafa  um að það hefði styrkt stöðu þeirra í næstu kosningum og væri í anda Einars Guðfinnssonar sem ég er hræddur um að bylti sér undir þessum skrípaleik.

Ég er viss um að þessi ákvörðun þeirra um að ganga til liðs við A-listann mun mun veikja þá til muna í næstu kosningum, ef ekki hreinlega leiða til afhroðs.

Ég  hef lengi verið þeirrar skoðunar að í litlu bæjarfélagi sem þessu eigi flokkapólitík ekki við. Það er gott fólk sem vill standa saman og vinna saman að heill almennings sem á að veljast til þessara starfa óháð flokkum, sem alltof margir líta á sem trúarsöfnuði  en ekki stjórnmálasamtök.

Á öllum þessum þremur listum A D og K eru einstaklingar sem hafa þann félagsþroska og það hugarfar sem nauðsynlegt er til að starfa saman að velferð almennings. Ég leyfi mér meira að segja að fullyrða að það beri lítið sem ekkert í milli þeirra þegar allt kemur til alls. Ef menn hefðu dug í sér að slíta sig frá þessum sértrúasöfnuðum og létu persónuleg samskiptavandamál til hliðar, snéru bökum saman og ynnu að almannaheill yrði það mikið framfaraspor.

Það er því miður einkenni á okkur flestum Bolvíkingum að hugsa mikið og hafa sterkar skoðanir... en segja þær aldrei upphátt. Þessu þarf að breyta. Ég skora á alla Bolvíkinga að strengja þess nú heit að láta skoðanir sínar í ljós og jafnvel skiptast á þeim, svo lýðræðið spegli nú virkilega vilja almennings.

Að lokum vil ég óska þess að sá baráttuandi og löngu tímabæra bjarsýni  á betri tíma sem mér hefur fundist ríkja í Bolungavík síðustu misserin megi halda áfram að styrkjast. Sú hugsun verður að vera ríkjandi í okkar góða landi að landsbyggðin skipti máli, því það gerir hún svo sannarlega.

Nýjum meirihluta og nýjum bæjarstjóra óska ég velfarnaðar, og hvet bæjarbúa alla til að standa fyrst og fremst vörð um hagsmuni Bolungavíkur og Bolvíkinga, mér finnst það hafa  gleymst þessa síðustu daga.

 Það hafa allir tapað í þessari orrustu, mestu þó íbúar Bolungavíkur hvar í flokki sem þeir standa.

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband